Íslenski boltinn

Pálmi Rafn með tilboð frá Val og KA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Valli
Húsvíkingurinn Pálmi Rafn Pálmason er á óskalista Vals og KA en kappinn er samkvæmt heimildum Vísis með tilboð frá báðum félögum.

Pálmi Rafn er á mála hjá norska liðinu Lilleström en hann hefur dvalið í Noregi síðan hann gekk í raðir Stabæk árið 2008.

Tímabilinu lýkur í Noregi í næsta mánuði en Lilleström er í fimmta sæti deildarinnar og er í þjálfaraleit. Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, er sterklega orðaður við félagið en Pálmi Rafn er sagður ætla að bíða með að taka ákvörðun þar til að nýr þjálfari verður ráðinn.

Pálmi Rafn hóf ferilinn mðe Völsungi en gekk í raðir KA árið 2003, þaðan sem hann fór í Val árið 2006. Hann á að baki tæplega 150 leiki í deild og bikar hér á landi og hefur skorað í þeim 51 mörk.

Hann hefur þar að auki spilað átján leiki með A-landsliði Íslands, síðast árið 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×