Íslenski boltinn

Kvennalið Breiðabliks búið að finna þjálfara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorsteinn og Borghildur Sigurðardóttir, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, handsala samninginn.
Þorsteinn og Borghildur Sigurðardóttir, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, handsala samninginn. Mynd/Breiðablik
Þorsteinn Halldórsson verður næsti þjálfari Breiðabliks í Pepsi-deild kvenna. Hann tekur við starfinu af Hlyni Svan Eiríkssyni, en undir hans stjórn endaði Kópavogsliðið í 2. sæti deildarinnar í sumar.

Í fréttatilkynningu frá Blikum segir:

Þorsteinn er reyndur þjálfari sem hefur starfað hjá KR, Þrótti og Haukum. Í sumar var Þorsteinn aðalþjálfari 2. flokks karla og í þjálfarateymi meistaraflokks karla hjá KR en þar hefur hann starfað undanfarin fimm ár.

Þorsteinn er Kópavogsbúi með UEFA A þjálfaragráðu.

Markmannsþjálfari mfl. kvenna og Þorsteini til aðstoðar verður Ólafur Pétursson en hann er okkur Blikum að góðu kunnur en hann hefur séð um markmannsþjálfun mfl. karla og kvenna undanfarin ár ásamt markmannsþjálfun yngri flokka félagsins. Óli er með markmannsþjálfaragráðu frá KSÍ og var m.a. í hópi fyrstu markmannsþjálfara hjá KSÍ sem útskrifuðust á dögunum með þessa gráðu.

Knattspyrnudeild Breiðabliks bindur miklar vonir við ráðningu Þorsteins og Ólafs og býður þá velkomna til starfa.

Jafnframt vill knattspyrnudeild Breiðabliks nota tækifærið og þakka Hlyni Svan og Kristrúnu Lilju fyrir þeirra góðu störf í meistaraflokki kvenna undanfarin ár.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×