Íslenski boltinn

Fjölnir aðeins tapað þremur leikjum með meira en einu marki | Fram tapað mörgum leikjum stórt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fram og Fjölnir berjast um að halda sæti sínu í Pepsi-deildinni.
Fram og Fjölnir berjast um að halda sæti sínu í Pepsi-deildinni. Vísir/Stefán
Úrslitin í Pepsi-deild karla ráðast á morgun þegar lokaumferðin fer fram. Fimm af sex leikjum umferðarinnar skipta máli, en barist er um Íslandsmeistaratitilinn, síðasta Evrópusætið, auk þess sem Fjölnir og Fram keppast um að halda sæti sínu í deildinni.

Staða Framara er erfið, en liðið situr í 11. og næstneðsta sæti deildarinnar með 18 stig, tveimur minna en Fjölnir sem er í 10. sæti.

Markatala Fjölnis er einnig mun betri, -6 gegn  -19, og því dugir Grafarvogspiltum jafntefli gegn ÍBV á heimavelli til að halda sæti sínu í deildinni. Framarar þurfa að sama skapi að vinna sinn leik gegn Fylki á heimavelli og treysta á að ÍBV vinni Fjölni.

Fjölnir er sem áður sagði með miklu betri markatölu, en ekkert lið í deildinni er með jafn vonda markatölu og Fram (-19).

Þegar tapleikir Fjölnis og Fram eru skoðaðir kemur í ljós að Safamýrarliðið hefur tapað mun fleiri leikjum stórt en Grafarvogsliðið.

Fram hefur tapað 13 leikjum, þar af níu með tveimur mörkum eða meira. Lærisveinar Bjarna Guðjónssonar hafa tapað fimm leikjum með tveimur mörkum, tveimur leikjum með þriggja marka mun og tveimur með fjögurra marka mun.

Í þessum 13 tapleikjum hefur Fram fengið á sig 39 mörk, eða 3,0 að meðaltali í leik.

Fjölnismenn hafa tapað níu leikjum, en sex þeirra hafa þeir tapað með eins marks mun. Lærisveinar Ágústs Gylfasonar hafa tapað einum leik með tveimur mörkum, einum með þremur mörkum og einum með fjögurra marka mun.

Fjölnismenn hafa fengið á sig 23 mörk í tapleikjunum níu, eða 2,6 að meðaltali í leik.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×