Enski boltinn

40 milljónir í húfi í Kaplakrika

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Stjörnunnar og Inter í sumar.
Úr leik Stjörnunnar og Inter í sumar. Fréttablaðið/Andri Marinó
FH og Stjarnan mætast í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í knattspyrnu þegar lokaumferð Pepsi-deildar karla fer fram í dag.

Fastlega má gera ráð fyrir því að leikmenn og þjálfarar liðanna séu fyrst og fremst að hugsa um að vinna titilinn fyrir sitt félag en engu að síður eru heilmiklir fjármunir í húfi.

Félögin í Pepsi-deild fá verðlaunafé fyrir árangur sinn í deildinni en sú upphæð bliknar í samanburði við þann pening sem félögin fá greitt fyrir þátttöku sína í forkeppnum Evrópukeppnanna.

Íslandsmeistararnir fá þátttökurétt í forkeppni Meistaradeildar Evrópu þar sem hverju liði eru tryggðar minnst 58 milljónir króna í tekjur, þó svo að liðið falli strax úr leik líkt og KR gerði er það mætti skoska liðinu Celtic í sumar.

Liðin í 2.-4. sæti forkeppni Evrópudeildar UEFA fá minnst 18,5 milljónir fyrir þátttöku sína í keppninni en meira eftir því sem komast lengra í keppninni.

Það skal þó tekið fram að líklegt er að íslensku liðin í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar fái mun auðveldari andstæðing en Íslandsmeistararnir í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Þá fylgir því talsverður kostnaður við að taka þátt í Evrópukeppni, svo sem ferðakostnaður og hótelgisting, sem dregst frá þeirri upphæð sem liðin fá frá UEFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×