Íslenski boltinn

Guðmundur: Kemur allt saman mjög fljótlega í ljós

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Daníel
Guðmundur Benediktsson var ánægður með 3-0 sigur sinna manna á Val í lokaumferð Pepsi-deildar karla í dag. Hann vildi þó ekkert segja um hvort að hann yrði áfram með liðið.

Hann segir að það séu blendnar tilfinningar að loknu tímabilinu en tók við liðinu í byrjun júní þegar Ólafur Kristjánsson fór til Danmerkur.

„Ég tók við liðinu í fallsæti og í svolítið erfiðri stöðu. Það var ýmislegt að angra leikmannahópinn að því virtist vera. Því var ég heilt yfir ánægður með hvernig til tókst að halda hópnum saman. Ég held að við náðum að vinna ágætlega úr hlutunum úr því sem komið var.“

„Þetta var allt saman mjög erfitt. Það var vitað að þjálfarinn væri að fara og annar að taka við. Það er kúnst að eiga við slíka hluti en mér fannst það takast ágætlega.“

Hann segist ekki vita hvernig framtíð sín er hjá Breiðabliki. „Ég veit bara að framtíðin er björt í lífinu.“

Það hafa verið sögusagnir um að þér hafi verið stillt upp við vegg og gert að hætta í dagvinnunni til að geta haldið áfram hjá Breiðabliki.

„Ég ætla ekkert að tjá mig um það. Þetta kemur allt saman í ljós. Ég ætla að njóta þess að hafa unnið þennan leik. En það kemur í ljós mjög fljótlega.“

Viltu halda áfram með Breiðablik?

„Ég kýs að tjá mig ekki um þetta á þessu augnabliki.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×