Íslenski boltinn

Veigar Páll: Ég missti mig bara

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Andri Marinó
Veigar Páll Gunnarsson var klökkur í viðtali við Ásgeir Erlendsson á Stöð 2 Sport í leikslok.

Stjarnan varð Íslandsmeistari eftir 2-1 sigur á FH í ótrúlegum leik liðanna í lokaumferð Pepsi-deildar í dag.

Staðan var þó dökk um tíma því Veigar Páll Gunnarsson fékk rautt spjald fyrir að slá til Hólmars Arnar Rúnarssonar þegar Stjarnan var 1-0 yfir. Stuttu síðar jafnaði FH metin.

„Ég hélt að ég væri kannski að eyðileggja fyrir okkur. Ég missti mig bara - fékk trans í hausinn. Þetta var barnalegt og ég skammast mín fyrir þetta.“

„Sem betur fer skemmdi ég ekki fyrir. Það er eins og að við áttum að verða Íslandsmeistarar allt tímabilið. Þetta hefur verið ótrúlegt.“

„Það sem skilar þessu fyrir okkur er liðsheild. Vinnusemi, stemning í liðinu.“

Veigar Páll varð Íslandsmeistari með KR á sínum tíma en hann segir að þessi sé stærri. „Með fullri virðingu fyrir KR. Ég er uppalinn Garðbæingur og að ná þessu þegar ég er á síðasta snúningi á mínum ferli er magnað.“

„Ég trúði þessu [eftir að ég fór út af]. Ég hafði trú á þessu. Við höfum aldrei tapað manni færri í sumar. Afskaðu, nú verð ég að fara að fagna,“ sagði hann og hljóp í burtu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×