Íslenski boltinn

Bergsveinn: Sáttur í Grafarvoginum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bergsveinn í baráttunni við Andrés Má Jóhannesson, leikmann Fylkis.
Bergsveinn í baráttunni við Andrés Má Jóhannesson, leikmann Fylkis. Vísir/Valli
Bergsveinn Ólafsson, fyrirliði Fjölnis í Pepsi-deild karla, segir ekkert komið á hreint með sína framtíð, en hann hefur verið orðaður við lið í efri helmingi deildarinnar.

„Ég er allavega með samning út næsta tímabil, þannig að lítur allt út fyrir að ég verði áfram hjá Fjölni. En ef eitthvað kæmi upp myndum við bara skoða það í sameiningu,“ sagði Bergsveinn í samtali í við Vísi í dag. Hann segist ekki hafa heyrt af áhuga annarra liða.

„Nei, ég er ekkert að stressa mig á því. Tímabilið var bara að klárast og maður er lítið að stressa sig á meintum áhuga annarra liða. Ég hef ekki hugmynd, en Fjölnir hlýtur að láta mig vita ef eitthvað kemur upp,“ sagði Bergsveinn, en hefur hann áhuga á að hleypa heimadraganum og spila fyrir lið í efri helmingi Pepsi-deildinni eða jafnvel erlendis?

„Ég er sáttur í Grafarvoginum en það væri frábært, hvort sem það væri núna eða eftir næsta tímabil, að komast út. Ég stefndi að því að fara út eftir þetta tímabil, en ég held að það sé ekkert mikið í deiglunni núna, þannig að ég verð bara að bíða og sjá.“

Bergsveinn, sem skoraði fjögur mörk í 21 leik í Pepsi-deildinni í sumar, segir að Fjölnir hafi náð sínu aðalmarkmiði í sumar.

„Fyrsta og eina markmiðið var að halda okkur uppi, hvernig sem við færum að því. Og við náðum því markmiði.

„Við vorum að spila ágætlega í sumar. Það voru kannski 3-4 hálfleikir sem við vorum lélegir í, en mér fannst við standa í öllum og spila ágætis bolta. Við vorum sjaldan lakari aðilinn í leikjum okkar,“ sagði Bergsveinn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×