Körfubolti

Fór um menn þegar hlunkurinn lenti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jón Hrafn var fluttur upp á sjúkrahús eftir byltuna sem hann fékk á sunnudag
Jón Hrafn var fluttur upp á sjúkrahús eftir byltuna sem hann fékk á sunnudag Vísir/Ernir
Það fór mun betur en á horfðist í tilfelli KR-ingsins Jóns Hrafns Baldvinssonar sem fékk slæma byltu í leik liðsins gegn Grindavík í Meistarakeppni KKÍ á sunnudagskvöld. Hann hlaut slæma byltu og lenti illa á bakinu.

„Það fór um menn þegar hlunkurinn lenti,“ sagði hann í léttum tón við Fréttablaðið í gær. Jón Hrafn var fluttur upp á sjúkrahús en fékk að fara heim að skoðun lokinni.

Það kom hár skellur þegar Jón Hrafn lenti í gólfinu. „Hann ómar enn í höfðinu á mér,“ sagði hann og bætti við að það hefði farið um hann þegar fæturnir byrjuðu að titra og hann fann fyrir verk í bakinu.

„Venjulega stendur maður bara upp og harkar af sér. En ég fann að mér sortnaði fyrir augum og þá byrjaði titringurinn. Þá sagði sjúkraþjálfarinn að maður ætti ekki að taka neina áhættu með svona lagað og kallaði til börurnar,“ sagði Jón Hrafn sem ætlar að taka hvíld frá æfingum í að minnsta kosti viku. „Eftir það vona ég að ég fái grænt ljós frá læknunum.“

Hann var búinn að vera inni á vellinum í aðeins fimm sekúndur þegar hann meiddist og fékk að heyra það frá liðsfélögum sínum. „Það leið ekki á löngu þar til að þeir byrjuðu að kalla mig fimm sekúndna manninn,“ sagði hann og hló. Jón Hrafn er nýgenginn til liðs við KR, uppeldisfélag sitt, eftir nokkurra ára veru hjá KFÍ á Ísafirði.

„Þar var ég vanur því að spila í minnst 25 mínútur í hverjum leik og því ætlaði ég aldeilis að nota tækifærið nú og sýna mig,“ sagði Jón Hrafn


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×