Körfubolti

Öruggur Snæfellssigur | Gömlu mennirnir góðir í sigri Keflavíkur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður Þorvaldsson skoraði 13 stig í sigri Snæfells í kvöld.
Sigurður Þorvaldsson skoraði 13 stig í sigri Snæfells í kvöld. Vísir/Andri Marinó
Snæfell vann öruggan sigur á nýliðum Fjölnis, 84-65, í Stykkishólmi í fyrstu umferð Domino's deildar karla í körfubolta í kvöld.

Hólmarar byrjuðu betur og leiddu með sex stigum, 21-16, eftir fyrsta leikhluta. Þeir héldu svo í horfinu í öðrum leikhluta, en staðan í hálfleik var 38-31, Snæfelli í vil.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og um miðjan þriðja leikhluta leiddu þeir með 17 stigum, 53-36.

Fjölnismönnum tókst ekki að koma eftir þessa erfiðu byrjun á seinni hálfleiknum og Snæfell vann að lokum 19 stiga sigur, 84-65.

Willy Nelson átti frábæran leik fyrir Snæfell, en hann skoraði 30 stig og tók 19 fráköst. Austin Magnús Bracey skoraði 18 stig, tók fjögur fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Sigurður Þorvaldsson og Pálmi Freyr Sigurgeirsson skoruðu 13 stig hvor.

Daron Lee Sims skoraði 26 stig og tók 10 fráköst í liði Fjölnis og þá skoraði Arnþór Freyr Guðmundsson 13 stig og tók níu fráköst.

Keflavík, sem lék sinn fyrsta deildarleik undir stjórn Helga Jónasar Guðfinnssonar, vann fimm stiga sigur, 65-70, á Skallagrími í Borgarnesi.

Staðan var hnífjöfn lengst af; 18-19 eftir fyrsta leikhluta, 31-31 í hálfleik og 50-50 fyrir fjórða leikhluta.

Þar reyndust Keflvíkingar hins vegar sterkari. Þeir náðu átta stiga forystu, 51-59, um miðjan leikhlutann, en Skallarnir náðu að minnka muninn í eitt stig, 65-66, þegar 40 sekúndur voru eftir. Guðmundur Jónsson og Damon Johnson tryggðu Keflvíkingum svo sigurinn með fjórum stigum af vítalínunni.

Guðmundur og Damon voru stigahæstir í liði Keflavíkur með 18 stig hvor. Þá skoraði Gunnar Einarsson, sem tók skóna úr hillunni fyrir tímabilið, 15 stig.

Tracy Smith var atkvæðamestur í liði Skallagríms með 28 stig og 16 fráköst.


Tengdar fréttir

Utan vallar: Vonandi ekki 1+11 deildin

Dominos-deild karla í körfubolta hefst í kvöld með fjórum leikjum en margir bíða spenntir eftir því hvaða áhrif miklar mannabreytingar hafa á gang mála í karlakörfunni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×