Íslenski boltinn

Umfjöllun og viðtöl: Þór - Breiðablik 2-0 | Evrópudraumur Blika dáinn

Ólafur Haukur Tómasson á Þórsvelli skrifar
Jóhann Helgi skoraði í dag.
Jóhann Helgi skoraði í dag.
Þórsarar unnu síðasta heimaleik sinn í Pepsi deild karla að sinni þegar þeir eyðilögðu drauma Breiðabliks á að næla í Evrópusæti á næstu leiktíð og enduðu átta leikja taphrinu sína.

Miklar breytingar voru á liði Þórs þegar leikurinn hófst en lykilmenn í sumar eins og Shawn Nicklaw og Chukwudi Chijindu sátu á varamannabekknum. Lið Þórs var því aðeins stillt upp með strákum að norðan. Kristinn Þór Rósbergsson og Hjörtur Geir Heimisson, sem leysti stöðu Sandor Matus í markinu, byrjuðu sína fyrstu leiki hjá Þór í sumar og ganga líklega sáttir af velli.

Heimamenn í Þór settu tóninn strax á fyrstu mínútum leiksins þegar Jóhann Helgi Hannesson kom þeim yfir með flottu skallamarki eftir góða fyrirgjöf Kristin Þórs Rósbergssonar utan af hægri kantinum. Þórsurum tókst þá að brjóta 413 mínútna markaþurrð sína en síðasta mark sem þeir skoruðu kom 18. ágúst.

Markið kom eins og skellur á lið Breiðabliks sem náðu ekki tökum á leiknum til að byrja með. Skömmu eftir mark átti þó Elfar Árni Aðalsteinsson skalla í þverslá úr dauðafæri. Þórsarar komu boltanum aftur í net Breiðabliks um miðbik fyrri hálfleiks en Kristinn Þór Rósbergsson var tæpur á rangstöðu en kláraði færið sitt með frábæru skoti.

Kristinn Þór kórónaði flottan leik sinn þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af leiknum þegar hann komst inn í vítateig Breiðabliks, lék á varnarmann og renndi boltanum snyrtilega framhjá Gunnleifi í marki Breiðabliks. Heimamenn í Þór komnir í 2-0 og unnu sinn þriðja leik í sumar, í þeim leikjum sem Þór komust yfir þá unnu þeir níu af þeim tólf stigum sem liðið er með.

Sveinn Elías Jónsson: Svipað og áður, nema við skoruðum mörkin

„Þetta var mjög svipað og síðustu tíu leikir nema það vorum við sem skoruðum þessi mörk en ekki hitt liðið. Þetta er erfitt tímabil andlega og gott fyrir geðheilsuna í skammdeginu að ná í sigur," sagði Sveinn Elías Jónsson fyrirliði Þórs eftir leikinn.

Þór stillti upp óhefðbundnu byrjunarliði og voru leikmenn eins og Chukwudi Chijindu og Shawn Nicklaw á varamannabekknum og þeir sem byrjuðu voru allt strákar að norðan. Sveinn Elías var ánægður með þessa uppstillingu þjálfara síns.

„Mér sýndist það vera gott og ég var mjög hlynntur þessu. Það var mjög gaman að hafa fleiri Þórsara í liðinu og ég held þeir hafi nýtt tækifærið sitt í dag. Það var sérstaklega gaman að sjá Krissa Rós, hann skoraði og lagði upp mark og Hjörtur hélt hreinu, það var mjög gaman að því,"

Með þessari uppstillingu má kannski reikna með að Þór sé byrjað að horfa til næstu leiktíðar. Sveinn segir að þeir ætli sér beina leið upp aftur.

„Er það ekki bara planið [að fara strax upp aftur]? Jú, við getum sagt það að við séum að leggja línurnar fyrir næstu leiktíð," sagði Sveinn.

„Það er ekki mikið sem stendur upp úr í sumar en þetta var ótrúlega mikið stöngin út tímabil hjá okkur. Ótrúlega margir leikir sem hafa ekki fallið með okkur en hver er sinna gæfu smiður og það gildir um okkur. Það bara gekk ekki upp hjá okkur í sumar en gaman að sjá að menn hafa ekki gefast upp," sagði Sveinn.

„Ég reikna með því," sagði Sveinn þegar hann var spurður út í það hvort hann hyggðist vera áfram í herbúðum Þórs næsta sumar.

Páll Viðar Gíslason: Gerir ekki mikið fyrir töfluna

„Leikurinn leit ágætlega út og ég hefði viljað sjá þetta oftar í sumar, þá hefði ég líklega brosað meira. Þetta var flottur leikur hjá strákunum, þeir lögðu sig fram og uppskáru sigur," sagði Páll, þjálfari Þórs eftir leikinn.

Þór batt enda á átta leikja taphrynu sína með sigrinum í dag í síðasta heimaleik sínum í Pepsi deildinni. Hafði leikurinn eitthvað að segja fyrir hans lið?

„Fyrir töfluna gerir þetta ekki mikið en fyrir leikmenn er þetta sönnun fyrir sjálfum sér að þeir eiga fullt erindi fyrir sjálfum sér ef allt er í réttum gír og kveðja okkar fólk í Pepsi deildinni árið 2014 með stolti," sagði Páll.

Sveinn Elías talaði um að leikurinn hafi spilast eins og flestir leikir þeirra en helsti munurinn í dag var að þeir komust yfir en ekki mótherjinn. Páll var nokkuð sammála því.

„Ég tekið undir eitthvað af þessu. Við höfum komist þrisvar sinnum yfir í leikjum okkar í sumar og það hefur gefið okkur níu stig. Hver veit hvað hefði gerst ef við hefðum potað inn mörkum fyrr og ekki lekið hinu meginn. Það þýðir þó ekki að væla yfir því núna," sagði Páll.

Guðmundur Benediktsson: Óþarfi að gefa þeim vítamínbox

„Ég er hundfúll. Við vorum í bullandi séns á að gera atlögu að fjórða sætinu í deildinni og lögðum leikinn upp þannig að þetta væri enn einn úrslitaleikurinn fyrir okkur og við hentum því frá okkur snemma. Þórsliðið er ekki lið sem þú vilt lenda undir gegn og tölfræðin sýnir það að þeir vinna flesta leiki sem þeir komast yfir í sumar. Það var því algjör óþarfi að gefa þeim þetta vítamínbox," sagði Guðmundur, þjálfari Breiðabliks eftir leikinn.

Hann var ekki sáttur með leik sinna manna og fannst þeir ekki mæta Þórsurum stál í stál. Hann sagðist vilja forðast það að lenda undir á móti Þórsurum en taldi sína menn hafa getað gert betur í leiknum.

„Mér fannst við þurfa að gera betur alls staðar á vellinum. Það var vitað að það yrði kraftur í Þórsliðinu og mér fannst við ekki alveg mæta því í upphafi og í fyrri hálfleik. Við skánuðum í seinni hálfleik og mér fannst við stjórna honum frá upphafi til enda þó að Þór hafi skorað eitt mark þarna í lokin. Mér er það óskiljanlegt hvernig okkur tókst ekki að skora hér í dag því við fengum nú alveg færin til þess,"

Nafn Guðmundar hefur blandast í umræður um möguleg þjálfaraskipti sem gætu átt sér fyrir næsta sumar. Hann vildi ekki gefa nein skýr svör á framtíð sinni og að hann hefði aðeins hugann við næsta leik.

„Ég er bara að fara að þjálfa Breiðablik í vikunni og stýra þeim gegn Val eftir viku. Það er það eina sem ég er að spá í," sagði Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×