Íslenski boltinn

Ingvar: Átti í erfiðleikum með að sjá boltann vegna svima

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ingvar Jónsson ætlar að spila á laugardaginn.
Ingvar Jónsson ætlar að spila á laugardaginn. vísir/daníel
Ingvar Jónsson, markvörður Stjörnunnar í Pepsi-deild karla í knattspyrnu, þurfti að fara af velli í gær vegna höfuðmeiðsla þegar liðið valtaði yfir Fram, 4-0.

Ingvar fékk högg á höfuðið þegar hann lenti í samstuði við Guðmund Stein Hafsteinsson, framherja Fram, í byrjun seinni hálfleiks, en Njarðvíkingurinn hélt leik áfram.

Skömmu síðar bað hann um skiptingu og kom Sveinn Sigurður Jóhannesson inná á 58. mínútu, en hann hélt hreinu í öðrum leiknum sínum í sumar.

„Þetta var í lagi fyrst en svo fór mig að svima svo mikið að ég sá ekki boltann þegar ég tók útspörk. Frikki sjúkraþjálfari sagði mér að vera skynsamur, en láta vita ef mér færi að líða illa. Ég tók því þessa ákvörðun; fannst hún skynsamlegri í þessari stöðu,“ sagði Ingvar í samtali við Vísi í morgun.

„Ég fór upp á spítala í gær í smá skoðun hjá lækni en það var ekkert meira gert. Þetta hefur lagast mikið síðan þá og hausverkurinn og sviminn farinn. Ég er miklu betri í dag en í gær, en ætli ég þurfi ekki bara að hvíla mig í einn til tvo daga,“ sagði Ingvar sem verður með í úrslitaleiknum gegn FH á laugardaginn, að eigin sögn.

„Ég spila úrslitaleikinn. Það þarf enginn að hafa áhyggjur af öðru.“

Úrslitaleikurinn verður sá fjórði um titilinn á síðustu 18 árum og er Ingvar eðlilega farinn að hlakka til.

„Þetta verður bara geðveikt. Við erum búnir að spila nokkra stórleikina í sumar þannig við erum öllu vanir. Pressan er öll á FH þannig þetta verður bara gaman,“ sagði Ingvar Jónsson.

Atvikið frá því í gær. Ingvar handsamar boltann, en sekúndu síðar rekur Guðmundur Steinn fótinn í höfuðið á markverðinum.vísir/andri marinó

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×