Fótbolti

Guðlaugur tryggði sigurinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðlaugur fagnar marki í leik með NEC Nijmegen í Hollandi.
Guðlaugur fagnar marki í leik með NEC Nijmegen í Hollandi. Vísir/Getty
Guðlaugur Victor Pálsson hélt upp á nýjan fjögurra ára samning við Helsingborg með því að tryggja liðinu 2-1 sigur á Åtvidaberg í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Markið skoraði hann á 67. mínútu en staðan í hálfleik var 1-1. Þetta var fyrsta mark Guðlaugs í Svíþjóð en liðið er í áttunda sæti með 36 stig. Arnór Smárason kom inn á sem varamaður í liði Helsingborg á 83. mínútu.

Brommapojkarna tapaði enn einum leiknum í kvöld er liðið laut í lægra hald fyrir Halmstad, 3-0, á heimavelli.

Liðið féll í síðustu umferð en það er langneðst í sænsku deildinni með níu stig - sautján stigum á eftir næstu liðum, Gefle, Falkenberg og Norrköping.

Kristinn Jónsson, sem hefur ekki spilað með liðinu síðan um miðjan ágúst, var ekki með Brommapojkarna í dag. Guðjón Baldvinsson og Kristinn Steindórsson spiluðu allan leikinn með Halmstad sem er í ellefta sæti með 33 stig.

Skúli Jón Friðgeirsson var í byrjunarliði Gefle sem tapaði fyrir Örebro á heimavelli, 2-1, en þetta var þriðja tap liðsins í röð.

Rúnar Már Sigurjónsson og Jón Guðni Fjóluson voru báðir í byrjunarliði Sundsvall sem vann Husqvarna, 2-1. Liðið er í þriðja sæti deildarinnar með 51 stig, jafn mörg og Hammarby og einu á eftir toppliði Ljungskile.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×