Sport

Frá Toys R Us í NFL-deildina

Ethan Westbrooks.
Ethan Westbrooks. vísir/getty
Saga NFL-leikmannsins Ethan Westbrooks er engri lík en hann fékk sér húðflúr í andlitið svo hann þyrfti aldrei að vinna „eðlilega" vinnu aftur.

Fyrir aðeins þrem árum síðan var þessi leikmaður St. Louis Rams að vinna í leikfangaversluninni Toys 'R' Us í Sacramento.

Honum fannst ekki gaman í vinnunni og þegar hann sagði upp ákvað hann að fá sér aldrei aftur venjulega vinnu. Til þess að minna sig á það þá fékk hann sér húðflúrið í andlitið. Þannig gleymdi hann aldrei markmiði sínu.

„Ég ákvað að skella þessu bara í andlitið á mér. Það minnti mig á að annað hvort væri ég gaurinn með húðflúrið í andlitinu í leit að vinnu eða leikmaður í NFL-deildinni. Ég sé ekki eftir því að hafa gert þetta í dag," sagði Westbrooks.

Hann var valinn í leikmannahóp Rams á dögunum og sló meðal annars út hinn samkynhneigða Michael Sam sem nú æfir með Dallas Cowboys. Frammistaða Westbrooks með Rams er sögð vera aðalástæðan fyrir því að Sam fékk ekki samning hjá Rams.

Á andliti Westbrooks stendur: „Laugh now. Cry later."

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×