Íslenski boltinn

Hörður Árna: Ekki erfiðara en gegn Poznan

Ingvi Þór Sæmundsson á Laugardalsvelli skrifar
Hörður á spretti í kvöld.
Hörður á spretti í kvöld. vísir/getty
„Þetta var mjög góð reynsla, en mjög svekkjandi tap. Þetta voru leiðinleg mörk sem við fengum á okkur og við hefðum átt að koma í veg fyrir þau,“ sagði Hörður Árnason, vinstri bakvörður Stjörnunnar eftir 3-0 tapið gegn Inter á Laugardalsvelli í kvöld.

Hann sagði að fyrstu tvö mörk Inter hefðu komið á slæmum tímum, undir lok fyrri hálfleiks og í byrjun þess seinni.  

„Þau komu á versta tíma. Við héldum að við værum að sigla inn í hálfleikinn með jafna stöðu, en þá fengum við á okkur mark.

„Við héldum sama skipulagi þrátt fyrir að hafa fengið á okkur mark undir lok fyrri hálfleiks. Jafnvel þótt staðan hafi verið 0-0, hefðum við alltaf þurft að skora á San Siro.

„Planið var alltaf að vera þolinmóðir og þéttir til baka og sækja hratt á þá,“ sagði Hörður, en hvernig upplifun var að spila þennan leik?

„Þetta var eiginlega ekki erfiðari leikur en leikirnir gegn Lech Poznan. Þetta var voða svipað. Bæði lið sækja og spila hratt í kringum vörn mótherjanna og reyna svo að gefa fyrir og skora þannig.

„Við vorum eiginlega bara óheppnir í kvöld. Mörkin sem við fengum á okkur voru ódýr og maður er svekktur eftir leikinn,“ sagði Hörður að lokum.


Tengdar fréttir

Mazzarri: Einvígið er ekki búið

Walter Mazzarri var ánægður með 3-0 sigur Inter á Stjörnunni í kvöld en hann var fljótur að minna blaðamenn á að ekkert væri útilokað í fótbolta þegar borið var undir hann hvort einvígið væri búið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×