Innlent

Blaðamaður DV tjáir sig: Hvetur ráðherra til að líta sér nær við ásakanir um pólitíska leiki

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Hanna Birna hvatti að sögn Reynis Traustasonar til þess að Jóhann Páll yrði rekinn úr starfi sínu sem blaðamaður á DV vegna umfjöllunar hans um lekamálið.
Hanna Birna hvatti að sögn Reynis Traustasonar til þess að Jóhann Páll yrði rekinn úr starfi sínu sem blaðamaður á DV vegna umfjöllunar hans um lekamálið. Mynd/Vísir
Jóhann Páll Jóhannsson, sá blaðamaður DV sem hefur fjallað hvað mest um lekamálið svokallaða, hefur sent frá sér tilkynningu á Facebook vegna þeirra frétta að innanríkisráðherra hafi krafist þess að blaðamenn sem fjölluðu um lekamálið yrðu reknir. Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, ræddi fréttaflutning DV í Sprengisandi í morgun. Hún telur hann hafa verið einhliða og blaðamenn miðilsins hafi gengið fram með fyrirfram ákveðnar skoðanir í málinu.

Jóhann Páll segir Reyni Traustason, ristjóra DV, hafa komið að máli við sig seint á síðasta ári vegna símtals sem Reynir hafði fengið frá Hönnu Birnu. Hafði innanríkisráðherra að sögn Reynis úthúðað Jóhanni og Jóni Bjarka Magnússyni, öðrum blaðamanni DV sem einnig hafði fjallað mikið um málið, og „gefið í skyn að við ættum við vandamál að stríða,“ segir Jóhann í færslunni. „Það væri best fyrir alla að við hættum að starfa á blaðinu.“

Segist hann jafnframt hafa virt það við Hönnu Birnu að samtalið hafi verið í trúnaði milli hennar og ritstjórans. Þar til innanríkisráðherrann og aðstoðarmaður hennar, Þórey Vilhjálmsdóttir, hafi kosið að segja frá samtölum sínum við Reyni.

„Það sem okkur fannst einna ósmekklegast var að Hanna Birna reyndi að höfða til Reynis á þeim forsendum að ríkt hefði gagnkvæmur vinskapur á milli þeirra tveggja. Þannig ætlaðist hún til þess að hann tæki þátt í einhverju plotti til að forða henni frá pólitískum óþægindum,“ útskýrir Jóhann. Hann segir Reyni þó ekki hafa tekið það í mál og blaðamanninum þykir ekki boðlegt að valdamenn hegði sér svona gagnvart fjölmiðlum. „Innanríkisráðherra ætti að líta sér nær áður en hún sakar aðra um pólitíska leiki,“ eru lokaorð færslunnar.  

DV hefur alveg síðan fréttir voru fyrst fluttar af málinu staðið við fréttaflutning sinn. Hanna Birna kveðst aftur á móti ekkert hafa gert rangt í málinu.

Færsluna má sjá hér að neðan í fullri lengd:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×