Innlent

Gleymdist að krýna Evrópumeistara á Ísafirði

ingvar haraldsson skrifar
Mikið fjör var á Mýrarboltanum á Ísafirði um helgina.
Mikið fjör var á Mýrarboltanum á Ísafirði um helgina. vísir/rósa
Forsvarsmenn Mýrarboltans gáfu út í gær að Evrópumeistari yrði krýndur „óháð kyni“ og hvöttu alþjóðaknattspyrnusambandið (FIFA) til að fylgja fordæmi þeirra. Jón Páll Hreinsson, mýrarfláki sagði í samtali við Vísi í gær: „Þetta er lausn á því ójafnrétti sem ríkir í knattspyrnuheiminum milli karla og kvenna.“ Jón bætti við að útreikningurinn væri bæði flókinn og ítarlegur.

Útreikningurinn virðist þó hafa verið full flókinn mótshaldara því það gleymdist að reikna út endanlega sigurvegara. Því var farið þá leið að krýna kynháða Evrópumeistara. Í karlaflokki voru það Ísak City sem fóru með sigur af hólmi en hinar reynslumiklu Ofurkonur sem kepptu í níunda sinn.

Aðspurður hvort bæta ætti úr þessari gleymsku mótshaldara átti Jóhann Bæring Gunnarsson, drullusokkur Mýrarboltans, ekki von á því. „Nei, við bíðum bara með það þangað til á næsta ári.“



Jóhann segir að mótshald hafi gengið frábærlega: „ Það var alveg drullugaman. Veðrið lék við okkur alla helgina. Nú óskar maður þess bara að allir komist heilir heim.“

Þrokell Þorkellsson, varðstjóri lögreglunnar á Vestfjörðum, segir að skemmtanahald hafi farið ljómandi vel fram á Ísafirði í nótt. Vaktin hafi verið tíðindalítil að undanskildum smápústrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×