Íslenski boltinn

Rúnar Páll spurður hvort hann vilji þjálfa Poznan

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúnar Páll sultuslakur á hliðarlínunni í gærkvöldi.
Rúnar Páll sultuslakur á hliðarlínunni í gærkvöldi. vísir/Adam Jastrzebowski
„Að komast í næstu umferð í Evrópudeildarinnar er mikið afrek og þetta er ótrúlegur árangur okkar liðs,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, á blaðamannafundi eftir jafnteflið gegn Poznan í gærkvöldi.

„Við vissum að þetta yrði erfiður leikur, en við höfðum trú á því að við gætum komist áfram. Við erum með gott lið og leikmennirnir leggja mikið á sig. Við viljum alltaf vinna og það er góður andi í liðinu. Ég er mjög ánægður, mjög ánægður, mjög ánægður,“ sagði Rúnar Páll.

Blaðamennirnir sem sátu fundinn höfðu mikinn áhuga á uppbyggingu Stjörnuliðsins og spurðu út í Danina fjóra sem spila með liðinu. Rúnar útskýrði að liðið væri að mestu samsett af uppöldum spilurum.

„Við erum með fjóra Dani sem eru hálfatvinnumenn. Í 25 leikmannahópi eru 18 úr unglingastarfinu. Þetta lið er byggt á unglingastarfinu okkar. Strákurinn sem kom inn eftir tíu mínútur [Heiðar Ægisson] er að spila sitt fyrsta tímabil með meistaraflokki. Við viljum byggja liðið á okkar mönnum,“ sagði Rúnar Páll, sem var svo spurður hvort hann vildi ganga í raðir Lech Poznan.

„Ég er mjög ánægður í mínu starfi. En þetta er flott félag með magnaða stuðningsmenn. Kannski einhverntíma seinna,“ svaraði hann.

Hér að neðan má sjá myndband frá blaðamannafundinum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×