Íslenski boltinn

Ólíklegt að Veigar verði með gegn Poznan

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Veigar Páll hefur spilað vel fyrir Stjörnunar í sumar.
Veigar Páll hefur spilað vel fyrir Stjörnunar í sumar. vísir/daníel
Veigar Páll Gunnarsson, framherji Stjörnunnar í Pepsi-deild karla í fótbolta, verður líklega ekki með liðinu í leiknum gegn pólska liðinu Lech Poznan í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudagskvöldið.

„Það eru spurningamerki með Veigar og Garðar eins og staðan er núna. Ég reikna síður með að Veigar verði með, en við verðum að meta þetta betur á morgun,“ segir RúnarPáll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, við Vísi.

Veigar Páll hefur átt í vandræðum með bakmeiðsli og þá fékk hann hnút í lærið gegn Motherwell sem heldur honum frá keppni núna. „Hann verður að æfa eitthvað drengurinn annars halda meiðslin bara áfram,“ segir Rúnar.

Garðar Jóhannsson hefur lítið verið með Stjörnuliðinu í sumar, en hann kom þó inn á gegn ÍBV á sunnudaginn og skoraði fallegt mark í 2-0 sigurleik Garðbæinga.

„Þær mínútur fóru ágætlega í Garðar, en svo fékk hann aðeins aftur í lærið á æfingu í gær þannig það er spurning hvort hann verði klár,“ segir Rúnar Páll.

Ingvar Jónsson, markvörður liðsins, meiddist á móti Motherwell á fimmtudaginn í síðustu viku og var ekki með gegn Eyjamönnum á sunnudaginn, en hann verður klár í leikinn gegn pólska stórliðinu.

„Ingvar er heill. Það var ekkert alvarlegt að hjá honum, heldur bara smá eymsli aftan í hnésbótinni. Hann þurfti bara nokkra daga til að jafna sig,“ segir Rúnar Páll Sigmundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×