Erlent

Pistorius í átökum á skemmtistað

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Óskar Pistorius lenti í rifrildi við mann á skemmtistað um helgina. Þrjár vikur eru þar til réttarhöldunum yfir honum vegna morðsins á kærustu sinni Reeva Steenkamp lýkur.

Pistorius var á skemmtistaðnum VIP, í Jóhannesarborg, á laugardagskvöld ásamt frænda sínum, þar sem maður að nafni Mortimer gekk að honum. Upp úr því hófst mikið rifrildi sem endaði með því að Pistorius yfirgaf skemmtistaðinn.

Talskona Pistorius segir Independent að Mortimer hafi gengið hart að honum varðandi réttarhöldin. Því hafi rifrildi hafist og bað Pistorius um að fá að vera einn með frænda sínum. Fljótt eftir það fór hann af skemmtistaðnum.

„Skjólstæðingur okkar sér eftir því að hafa farið á opinberan vettvang og bjóða upp á athygli.“

Mortimer segir þó atburðarásina vera allt aðra. Hann segir vin sinn hafa kynnt sig fyrir Pistorius og lýsti honum sem ölvuðum og mjög árásargjörnum.

Hann segir Pistorius hafa talað illa um vini sína og hve mikilvæg og áhrifamikil fjölskylda sín væri. Fljótlega hafi Mortimer ýtt við honum svo hann féll í gólfið. Þá hafi dyraverðir gripið inn í og Pistorius farið heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×