Körfubolti

Böðvar: Mörg ár síðan KR tapaði peningum á heimaleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Valli
Böðvar Guðjónsson, varaformaður körfuknattleiksdeildar KR, segir að sú umræða sem hefur átt sér stað um kostnað íslenskra félaga vegna dómgæslu sé slæm fyrir hreyfinguna.

Elvar Guðmundsson, formaður körfuknattleiksdeildar ÍR, sagði við Fréttablaðið í vikunni að það væri varla til það lið sem kæmi út í hagnaði eftir heimaleiki. Ástæðan væri sú að allar tekjur færu í dómarakostnað.

„Menn verða að líta sér nær,“ sagði Böðvar í samtali við Vísi í morgun. „Þeir verða að markaðssetja liðin sín og fá fólkið inn. Þetta er ekki umræða sem er körfuboltanum til góðs.“

„Það eru mörg ár síðan að KR tapaði peningum á heimaleik. Það þarf að fara ansi langt aftur í tímann til að finna það.“

Böðvar segir þó sjálfsagt að kostnaður vegna dómgæslu sé tekinn til skoðunar innan hreyfingarinnar. „En það er ekki gott fyrir íþróttina þegar menn bera sig svona illa. Menn verða að standa í lappirnar og markaðssetja liðin sín.“

Fram kom í viðtali við Hannes S. Jónsson, formann KKÍ, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í vikunni að kostnaður við dómgæslu í deildarkeppninni hafi verið 85 þúsund krónur á leik síðastliðinn vetur og 117 þúsund í úrslitakeppninni.

Hann sagði að ferða- og fæðiskostnaður sé íþróttafélögunum sérstaklega mikill bakki, ekki síst á landsbyggðinni. „Menn verða að reyna að standa saman og reyna að finna lausn til að lækka þessa tölu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×