Íslenski boltinn

James Hurst leystur undan samningi hjá Val

Tómas Þór Þórðarson skrifar
James Hurst heldur heim til Englands.
James Hurst heldur heim til Englands. vísir/daníel
Enski bakvörðurinn James Hurst spilar ekki fleiri leiki með Val í Pepsi-deild karla í fótbolta, en samningi hans við félagið hefur verið rift. Þetta staðfestir MagnúsGylfason, þjálfari Vals, í samtali við Vísi.

„Það var samkomulag um riftun. Félagslegi þátturinn var bara ekki í lagi hjá honum. Hann vildi ekkert síður sjálfur losna og fara heim,“ segir Magnús við Vísi.

Athygli vakti fyrr í sumar þegar Hurst meiddist í leik með Valsmönnum. Sást lítið til Valsmannsins næstu daga á eftir og kunnu liðsfélagar hans engin deili á hvar hann væri að finna. Það var svo þegar Englendingurinn birti myndir af sér á samfélagsmiðlum í gleðskap í Dubai sem ljóst var hvar hann var niðurkominn.

„Ég sé á eftir honum fótboltalega séð. Hann er frábær leikmaður og allt í toppmálum þar, en félagslegi þátturinn var ekki í lagi og þá var ekki hægt að halda þessu samstarfi áfram,“ segir Magnús Gylfason.

Samkvæmt heimildum Vísis mætti Hurst ekki á æfingu hjá Valsmönnum á þriðjudaginn. Leikmaður Vals staðfesti við Vísi að það hefði líklega verði dropinn sem fyllti mælinn.

James Hurst spilaði sjö deildarleiki með Val á tímabilinu og tvo í bikarnum, en hann var einnig á mála hjá liðinu í fyrra og spilaði þá sjö deildarleiki og skoraði eitt mark.

Hann kom fyrst til Íslands og sló í gegn með ÍBV sumarið 2010 en þá spilaði hann 16 leiki í Pepsi-deildinni og skoraði eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×