Fótbolti

Bale: Ég verð betri á næsta tímabili

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gareth Bale fagnar marki í Lissabon.
Gareth Bale fagnar marki í Lissabon. Vísir/getty
Gareth Bale, framherji Real Madrid, varar menn við því að hann verði enn betri á næsta tímabili. Hann vann spænska konungsbikarinn og Meistaradeildina með Real á sínu fyrsta tímabili hjá liðinu.

Það tók Bale smá tíma að koma sér í gang eftir vistaskiptin til Madrídar sem kostaði Real-menn litlar 86 milljónir punda. Hann var meiddur til að byrja með en var fljótur að sýna sínar bestu hliðar.

Í heildina skoraði Bale 15 deildarmörk í 27 leikjum og tryggði Real sigurinn í úrslitaleik bikarsins gegn erkifjendunum í Barcelona með stórbrotnu marki.

„Ég er mjög ánægður hjá Real Madrid og á næsta ári er ég viss um að ég verði bara betri,“ segir Gareth Bale sem vann Meistaradeildina í síðasta mánuði.

Þar tókst Real loksins að ná í 10. Evrópumeistaratitilinn sem það var búið að bíða svo lengi eftir. Næsta skref er að vinna hann aftur að ári.

„Ég vil vinna Meistaradeildina á næsta ári líka og vera fyrsta liðið sem gerir það tvö ár í röð,“ segir Gareth Bale.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×