Fótbolti

Ronaldo í metabækurnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ronaldo skorar fjórða og síðasta mark Real Madrid í úrslitaleiknum í gær.
Ronaldo skorar fjórða og síðasta mark Real Madrid í úrslitaleiknum í gær. Vísir/Getty
Portúgalinn Cristiano Ronaldo skoraði fjórða og síðasta mark Real Madrid úr vítaspyrnu þegar liðið lagði nágranna sína í Atletico Madrid, 4-1, í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í gær.

Þetta var 17. mark Ronaldos í Meistaradeildinni, en enginn leikmaður hefur skorað jafn mörg mörk í Meistaradeild Evrópu/Evrópukeppni meistaraliða á einu tímabili. Fyrra metið áttu þeir Jose Altafini og Lionel Messi. Sá fyrrnefndi skoraði 14 mörk fyrir AC Milan tímabilið 1962-63 og sá síðarnefndi gerði slíkt hið sama tímabilið 2011-12.

Þetta var í annað sinn sem Ronaldo verður Evrópumeistari, en hann hafði áður leikið sama leik með Manchester United vorið 2008. Ronaldo skoraði þá í úrslitaleiknum gegn Chelsea, en með markinu í gær varð hann aðeins annar leikmaðurinn í sögunni til að skora fyrir tvö félög í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Serbneski varnarmaðurinn Velibor Vasovic hafði áður afrekað slíkt hið sama. Hann skoraði mark Partizan Belgrad þegar liðið lá 2-1 fyrir Real Madrid í úrslitaleiknum 1966 og endurtók leikinn þremur árum seinna þegar hann skoraði fyrir Ajax í 4-1 tapi gegn AC Milan í úrslitaleik á Santiago Bernabéu í Madrid.

Alls hafa 17 leikmenn skorað í tveimur eða fleiri úrslitaleikjum í Meistaradeildinni, en Ronaldo og Vasovic eru þeir einu sem hafa skorað fyrir tvö mismunandi lið.


Tengdar fréttir

Sögulegur sigur Ancelottis

Carlo Ancelotti hefur unnið jafn marga Meistaradeildartitla og Bob Paisley gerði á sínum tíma með Liverpool. Ítalinn komst einnig í hóp þeirra þjálfara sem hafa stýrt tveimur liðum til sigurs í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×