Innlent

Vill spyrja íbúa út í sameiningarmöguleika Kópavogsbæjar

Sveinn Arnarsson skrifar
Ólafur Þór Gunnarsson, oddviti Vinstri grænna í bæjarstjórn Kópavogs lagði fram tillögu til bæjarráðs Kópavogs nú í morgun, þess efnis að boða til íbúakosninga meðal íbúa Kópavogs um sameiningarmöguleika Kópavogsbæjar. 

Tillögunni var frestað til næsta fundar og því ekki tekin efnisleg afstaða til tillögunnar. Ólafur Þór vill kanna hug íbúa til sameiningar Kópavogs við Hafnarfjörð og Garðabæ saman, Reykjavík, Garðabæ eða einhvern annan valkost sem íbúar sjá fyrir sér. Í samtali við Vísi eftir fundinn telur Ólafur líklegt að tillagan verði samþykkt á næsta fundi bæjarráðs.

Á þessu kjörtímabili hefur Ómar Stefánsson, fulltrúi Framsóknarflokksins, lagt fram tillögu með Ólafi Þór um að skoða mögulegika sameiningar Kópavogs við önnur nálæg sveitarfélög. Ómar Stefánsson hefur meira að segja gert sér í hugarlund að sameinað sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu gæti heitið Heiðmörk.

Í greinargerð með tillögu Ólafs Þórs segir að „Á kjörtímabilinu sem er að líða var samþykkt tillaga um sameiningu til suðurs að frumkvæði VG. Þá var ekki leitað álits íbúanna, en með vilja þeirra fengi málið meiri slagkraft. Umræða um íbúakosningar er mikil um þessar mundir. Samvinna sveitarfélaganna hefur aukist, og stór hluti íbúa lítur á svæðið sem eina heild. Mikilvægt er að eftir því sem sveitarfélögin takast á við fleiri verkefni að staða íbúanna verði jöfn á öllu svæðinu, og þjónusta og þjónustuframboð jöfnuð. Réttindi allra íbúanna til þjónustu eiga að vera þau sömu á öllu svæðinu og því mikilvægt að skoða hug íbúa sameininga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×