Fótbolti

Xavi: Barcelona á skilið að verða meistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi fagnar marki með Barcelona.
Xavi fagnar marki með Barcelona. Vísir/Getty
Xavi, fyrirliði Barcelona-liðsins, telur að liðið hafi unnið sér það inn í vetur að vinna spænska meistaratitilinn um næstu helgi. Það hefur ýmislegt gengið á þessu tímabili en Barca á samt möguleika á því að vinna sinn fimmta titil á sex árum.

Barcelona tekur á móti Atletico Madrid í lokaumferð spænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta um næstu helgi en leikurinn er hreinn úrslitaleikur um titilinn.

„Við eigum möguleika á sögulegum sigri og við ætlum ekki að klúðra því," sagði Xavi. Atletico er með þriggja stiga forskot en Barcelona vinnur titilinn á markatölu takist liðinu að vinna á laugardaginn.

„Deildin tekur níu mánuði og við höfum lagt mikið á okkur til að þess að vera í þessari stöðu. Þetta er búið að vera mjög erfitt tímabil en við eigum skilið að verða meistarar," sagði Xavi sem getur unnið spænsku deildina í áttunda skiptið á ferlinum.

„Nú er allt með okkur. Við erum á heimavelli og höfum stuðningsmennina okkar á bak við okkur frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Við höfum leikmennina, við höfum reynsluna og við höfum hungrið til að vinna titilinn," sagði Xavi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×