Íslenski boltinn

Þór/KA sótti þrjú stig á Selfoss

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Katrin Ásbjörnsdóttir skoraði fyrir Þór/KA í dag.
Katrin Ásbjörnsdóttir skoraði fyrir Þór/KA í dag. Vísir/Daníel
Þór/KA vann Selfoss, 3-2, í fyrsta leik annarrar umferðar Pepsi-deildar kvenna í fótbolta en leikið var á Selfossi í dag.

Hafrún Olgeirsdóttir kom gestunum í 1-0 á 6. mínútu og KatrínÁsbjörnsdóttir bætti við forskotið á 24. mínútu, 2-0.

Eva Lind Elíasdóttir minnkaði muninn fyrir Selfoss nokkrum mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks, 2-1, en eftir þrjár mínútur í þeim síðari skoraði Thanai Annis fyrir Þór/KA, 3-1.

Blake Stockton minnkaði muninn á ný fyrir heimakonur, 3-2, með marki á 52. mínútu en nær komst Selfoss ekki og keyrðu norðankonur heim með þrjú stig í farteskinu.

Þór/KA fer vel af stað í deildinni en liðið náði stigi af sterku liði Vals í fyrstu umferðinni og sótti nú þrjú stig á Selfoss.

Byrjun Selfoss er smá vonbrigði en liðið hefur styrkt sig mikið og fékk t.a.m. landsliðskonuna DagnýjuBrynjarsdóttir til liðs við sig í vetur. Hún spilaði allan leikinn í dag.

Selfoss er búið að tapa fyrstu tveimur leikjum sínum á Íslandsmótinu; gegn ÍBV og Þór. Næstu leikir í umferðinni fara fram á þriðjudaginn.

Markaskorarar eru fengnir frá úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×