Skoðun

Endurreisum Hótel Ísland

Björn Jón Bragason skrifar
Fyrir skemmstu risu harðar deilur um áform vinstrimeirihlutans í borgarstjórn um niðurrif hluta Sjálfstæðishússins og fleiri húsa á svokölluðum Landssímareit. Í því sambandi var mikið rætt um „verndun Ingólfstorgs“, en sá er þetta ritar er ekki einn um þá skoðun að það torg sé ákaflega mislukkað.

Sér í lagi er umgjörð torgsins sundurlaus, enda voru húsin þar allt í kring ekki hönnuð til að standa við torg. Örlögin höguðu því þannig að eitt mesta glæsihús bæjarins, Hótel Reykjavík, brann til kaldra kola árið 1944, en norðan við það, stóð reisulegt verslunarhús, Austurstræti 1, sem rifið var um 1960. Þarna urðu því til tvö bílaplön beggja vegna vesturenda Austurstrætis, Steindórsplanið og Hallærisplanið.

Hugmyndir um torg á þessum slóðum voru lengi í mótun, en stórir brunakaflar í næsta nágrenni bera vitni um ýmsar hugmyndir fyrri tíðar manna um breytingar á þessu umhverfi. Í samkeppni um hönnun svokallaðs Landssímareits komu fram hugmyndir um að færa gömlu húsin inn á torgið, eða byggja á hluta Ingólfstorgs, en í þessu sambandi er rétt að huga að því að torg á norðlægum vindasömum slóðum ættu gjarnan að vera lítil og umlukin háum húsum, enda óvíða skjól.

Undirritaðan langar að varpa fram þeirri hugmynd að Ingólfstorg verði lagt niður í núverandi mynd og Hótel Ísland og Austurstræti 1 endurreist þess í stað. Norðan nýs Austurstrætis 1 og sunnan nýja Hótels Íslands yrði þó gert ráð fyrir litlum opnum rýmum þar sem hægt yrði að koma fyrir útikaffihúsum.

Hér meðfylgjandi er póstkort sem gefið var út upp úr 1920, en þarna er horft til austurs frá gatnamótum Aðalstrætis og Austurstrætis, gatnamótum sem ekki eru lengur til. Hvernig væri nú að endurvekja að nokkru marki þetta fallega sjónarhorn og gefa framtakssömu fólki kost á að endurreisa þau hús sem þarna stóðu til yndisauka fyrir borgarbúa, jafnt sem gesti?

„Hvernig væri nú að endurvekja að nokkru marki þetta fallega sjónarhorn og gefa framtakssömu fólki kost á að endurreisa þau hús sem þarna stóðu til yndisauka fyrir borgarbúa, jafnt sem gesti?“
Björn Jón Bragason



Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×