Fótbolti

Mourinho: Ein mínúta í seinni hálfleik réð öllu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea.
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, tókst ekki að koma sínum mönnum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í kvöld en liðið tapaði þá 1-3 á heimavelli á móti spænska liðinu Atlético Madrid og er úr leik.

„Ein mínúta í seinni hálfleik réð öllu. Á þessari umræddu mínútu varði markvörður Atletico nánast óverjandi skalla frá John Terry og skömmu síðar fáum við á okkur vítaspyrnu sem drap leikinn," sagði Jose Mourinho við Sky Sports.

„Eftir þessa mínútu var aðeins annað lið í réttu hugarástandi því þeir vorum með undirtökin þegar hálftími var eftir. Við vorum með þennan leik í okkar höndum í klukkutíma en undanúrslitaleikir og mikilvægir leikir vinnast á smáatriðum. Þetta smáatriði var mjög mikilvægt," sagði Mourinho.

„Ég vil óska þeim til hamingju því þeir eru með mjög gott lið og það er frábært að sjá hvað þeir eru að gera í spænsku deildinni," sagði Mourinho.

„Ég get ekki gagnrýnt leikmenn sem reyndu allt. Við vorum í vandræðum með meiðsli, leikbönn og leikmenn sem máttu ekki spila í Meistaradeildinni. Það er svekkjandi að tapa svona stórum leik en ég er stoltur af þeim," sagði Mourinho.

„Næsta tímabil verður betra hjá okkur og það er okkar markmið. Yngri leikmennirnir okkar verða þá orðnir betri og vonandi náum við að bæta nokkrum leikmönnum við hópinn," sagði Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×