Körfubolti

Aðalsteinn dæmdi bikarúrslitaleikinn í Sviss

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aðalsteinn Hjartarson (lengst til vinstri) með þeim Fabrizio Pizio og Eric Bertrand sem dæmdu úrslitaleikinn með honum en allir þrír eru FIBA-dómarar.
Aðalsteinn Hjartarson (lengst til vinstri) með þeim Fabrizio Pizio og Eric Bertrand sem dæmdu úrslitaleikinn með honum en allir þrír eru FIBA-dómarar. Mynd/Úr einkasafni
Íslenski körfuboltadómarinn Aðalsteinn Hjartarson dæmdi um helgina bikarúrslitaleikinn í svissneska körfuboltanum þar sem Les Lions de Genève tryggði sér svissneska bikarinn eftir 73-59 sigur á Fribourg Olympic.

Þetta er þriðji bikarúrslitaleikur karla sem Aðalsteinn dæmir í Sviss en hann hefur einnig dæmt fjóra bikarúrslitaleiki hjá konunum. Aðalsteinn var því að dæma sinn sjöunda bikarúrslitaleik um helgina.

Aðalsteinn hefur verið búsettur í Sviss meira eða minna undanfarin átján ár en hann var heima á Íslandi á árunum 2002 til 2004. Hann hefur verið FIBA-dómari frá árinu 1999 en dæmdi ekki á árunum 2004 til 2009 vegna meiðsla.

Aðalsteinn hefur fengið fullt af flottum verkefnum undanfarin ár en hann dæmi úrslitaleikinn í deildarbikar kvenna fyrir mánuði síðan og einnig úrslitaleikinn í deildarbikar karla fyrir ári síðan.

Aðalsteinn fékk einnig sérstakt verkefni fyrir nokkrum árum þegar hann dæmdi þrjá vináttulandsleiki á milli unglingalandsliða Sviss og Norður Kóreu. Leikirnir fóru fram í Norður-Kóreu og er hann örugglega fyrsti og eini Íslendingurinn sem hefur dæmt körfuboltaleik í Norður-Kóreu.

Það er hægt að sjá myndband frá úrslitaleiknum sem svissneska sambandið setti saman með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×