Erlent

„Þú greipst til vopna í þeim eina tilgangi að skjóta hana til bana“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Pistorius við komuna í réttarsalinn í morgun.
Pistorius við komuna í réttarsalinn í morgun. vísir/afp
Saksóknarinn Gerrie Nelfullyrti í réttarsal í Pretoríu í morgun að spretthlauparinn Oscar Pistorius hefði vopnbúist í þeim eina tilgangi að skjóta kærustu sína, Reevu Steenkamp, til bana.

Vitnaleiðslur yfir Pistoriusi hafa staðið yfir í fimm daga og Nel þjarmaði að Pistoriusi í vitnastúkunni. Hann spurði Pistorius hvers vegna hann hefði ekki öskrað þegar hann sá Steenkamp helsærða á salerninu líkt og hann hafði gert skömmu áður. „Ég var niðurbrotinn,“ svaraði Pistorius.

Þá sakaði Nel Pistorius um að hafa hringt í öryggisverði í ógáti og sagt þeim að allt væri í lagi því hann hefði ekki viljað að þeir kæmu á staðinn.

„Hverjum eigum við að kenna um það að þú hafi skotið hana?,“ spurði Nel. Pistorius svaraði því á þá leið að hann hafi óttast um líf sitt. Saksóknarinn spurði þá hvort Steenkamp væri um að kenna þar sem hún sagði Pistoriusi ekki að hún ætlaði á salernið. Því neitaði Pistorius. „Eigum við þá að kenna ríkisstjórninni um? Þú hlýtur að kenna einhverjum um atvikið,“ sagði saksóknarinn þá. Pistorius ítrekaði fyrra svar.

„Þú myrtir Reevu,“ fullyrti saksóknarinn. „Þín útgáfa af sögunni er ekki bara ósönn heldur einnig svo fjarstæðukennd að hún getur ekki með nokkru móti verið sönn. Hún var læst inni á baðherberginu og þú greipst til vopna í þeim eina tilgangi að skjóta hana til bana.“

Fylgjast má með réttarhöldunum í beinni útsendingu hér fyrir neðan, en Pistorius sjálfur hefur stigið úr vitnastúkunni. Hann á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann sakfelldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×