Enski boltinn

Diego Costa og Torres býtti í burðarliðnum?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Costa og Fernando Torres.
Diego Costa og Fernando Torres. Vísir/Getty
Diego Simeone, þjálfari spænska félagsins Atletico Madrid, staðfesti í útvarpsviðtali á Spáni að Chelsea hafi sýnt framherjanum Diego Costa áhuga.

Diego Costa hefur farið á kostum í framlínu Atletico Madrid á leiktíðinni og hefur öðrum fremur séð til þess að Atletico er á toppnum á Spáni og komið í undanúrslit Meistaradeildarinnar.

Simeone ræddi líka um Fernando Torres, framherja Chelsea og uppalinn Atletico-mann. Torres er ekki ánægður hjá Chelsea og Simeone segist hafa það frá fyrstu hendi að Torres myndi elska það að snúa aftur til Atletico Madrid.

„Fernando er alltaf með okkur. Auðvitað hef ég sent honum skilaboð og hann er mjög ánægður með allt sem er að gerast hjá okkur. Hann óskar okkur alltaf hins besta og auðvitað vill hann fá tækifæri til að koma aftur til félagsins þar sem hann ólst upp hjá," sagði Diego Simeone í útvarpsviðtali á Spáni sem The Telegraph skrifaði frétt um í dag.

Samkvæmt þessu bendir margt til þess að Diego Costa og Torres býtti séu í burðarliðnum en miðað við framgöngu leikmannanna tveggja í vetur þá þarf nú Chelsea að borga vel á milli ef af þessu verður.

Diego Costa hefur skorað 34 mörk í 45 leikjum í öllum keppnum á leiktíðinni en Fernando Torres er með 9 mörk í 35 leikjum með Chelsea á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×