Viðskipti erlent

Game of Thrones bjór

Finnur Thorlacius skrifar
Nýjasti Game of Thrones bjórinn, Fire and Blood.
Nýjasti Game of Thrones bjórinn, Fire and Blood.
Starfsmenn Home Box Office, sem framleiðir hina vinsælu þáttaröð Game of Thrones, sátu fyrir tveimur árum á bar í New York og nutu mjög bjórs frá smáum þarlendum bjórframleiðanda sem sérhæfir sig í vönduðum bjór með belgísk einkenni.

Þar spratt upp sú hugmynd að fá einhvern bjórframleiðanda til að framleiða sérstakan Game of Thrones bjór. Nærtækast var náttúrulega að hafa samband við framleiðanda bjórsins sem þeir voru að drekka þá stundina, en hann heitir Brewery Ommegang og þar á bæ hikuðu menn ekki við að segja já.

Það kom reyndar Home Box Office mönnum á óvart að þeir hjá Ommegang voru miklir aðdáendur þáttanna og margir þeirra höfðu að auki lesið bók George R.R. Martin, sem þættirnir byggja á. Þar fyrirfannst reyndar lítill Game of Thrones bókaklúbbur.

Í hvert skipti sem ný þáttaröð af Game of Thrones byrjar kynnir Ommegang nýjan Game of Thrones bjór og hefur sá nýjasti, sem kynntur verður bráðlega, fengið nafnið Fire and Blood. Ávallt eru hátíðarhöld þegar nýr Game of Thrones bjór er kynntur.

Nafn brugghússins Ommegang kemur frá Belgíu og er frá því um 1500, þ.e. á miðöldum. Ommegang segir að Game of Thrones bjórinn eigi uppruna sinn í bjór sem framleiddur var á miðöldum og það virðist falla vel í kramið hjá aðdáendum Game of Thrones þáttanna, enda bjórinn vinsæll með afbrigðum.

Fyrsti Game of Thrones bjór Ommegang fékk nafnið Iron Throne og var af „Golden Ale“-gerð. Í hann var notað hunangsmalt og var hann því af sætari gerðinni. Af honum seldust 10.000 kassar af 750 cl. flöskum áður en kom að næstu gerð. Sá var af „Stout“-gerð og fékk nafnið Take the Black og var af dekkri gerð bjórs. Af honum seldist þrefalt meira en af þeim fyrsta og seldist hann upp líkt og sá fyrsti.  

Nýjasti bjórinn, Fire and Blood, er af „Belgian style red ale“-gerð og rauðlitum keim eins og nafnið bendir til. Framleiddir verða 36.000 kassar af bjórnum í fyrstu. Game of Thrones bjórar Ommegang hefur aukið mjög sölu framleiðandans og þeir sjá ekki eftir tengingunni við þættina vinsælu.

Fleiri bjórframleiðendur hafa farið í fótspor Ommegang og til dæmis framleiðir bruggverksmiðja í Philadelphia nú „Walking Dead“-bjór. 

Ommegang brugghúsið í New York fylki.Ommegang





Fleiri fréttir

Sjá meira


×