Íslenski boltinn

Sandra María sleit krossband og Katrín er með tvöfalt beinmar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sandra María Jessen.
Sandra María Jessen. Mynd/Vísir
Þór/KA varð fyrir gífurlegu áfalli í dag þegar í ljós kom eftir læknisskoðun að tveir af allra bestu leikmönnum liðsins sem og Pepsi-deildar kvenna í fótbolta eru alvarlega meiddir.

Hin bráðefnilega Sandra María Jessen, markadrottning Íslandsmótsins 2012, sleit krossband í leik gegn ÍBV síðastliðinn föstudag og verður því eðlilega ekkert með í sumar.

Katrín Ásbjörnsdóttir er með stórt beinmar og verður frá keppni í a.m.k. 6-8 vikur en frá þessu greinir vefsíðan Akureyri.net.

„Báðar voru þær á mjög flottri braut og auðvitað eru alvarleg meiðsli alltaf sorgarfréttir fyrir leikmenn og lið. Sem betur fer þá hafa þær báðar breitt bak og eru sterkir karakterar sem stíga uppúr þessu bakslagi með erfiðisvinnu, dugnaði og vilja. Þær verða báðar farnar að skora fyrir Þór/KA og landsliðin okkar áður en við vitum af,“ segir Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, í samtali við Akureyri.net.

Ekki bara er Þór/KA að missa tvo frábæra leikmenn í meiðsli heldur er ekki mikið til í kassanum hjá norðanliðinu til að fylla í skörðin, að sögn Jóhanns Kristins.

„Það er ekki mikið svigrúm svona skömmu fyrir mót að bæta við hópinn. Fjárhagslega er það líka nánast ógjörningur nema eitthvað sérstakt komi til,“ segir hann.

Sandra María skoraði níu mörk í 14 leikjum í Pepsi-deildinni síðasta sumar og þrjú mörk í fjórum leikjum í Borgunarbikarnum. Þór/KA komst í úrslit bikarsins en tapaði fyrir Breiðabliki.

Katrín skoraði 6 mörk í 16 deildarleikjum og þrjú mörk í jafnmörgum leikjum í Borgunarbikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×