Fótbolti

Ancelotti furðar sig á baulinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Real Madrid bauluðu á Cristiano Ronaldo í gær.
Stuðningsmenn Real Madrid bauluðu á Cristiano Ronaldo í gær. Vísir/Getty
Þrátt fyrir 5-0 sigur á Rayo Vallecano í gær virtust sumir stuðningsmenn Real Madrid ekki á eitt sáttir með gang mála og bauluðu á leikmenn liðsins, þ.á.m. markvörðinn Diego Lopez og Cristiano Ronaldo.

Carlo Ancelotti, þjálfari liðsins, furðaði sig á þessu athæfi stuðningsmannanna og kvaðst ekki skilja hvað þeim gengi til.

"Ég hef áður sagt að ég skilji að það sé baulað á okkur, því stundum eigum við það skilið," sagði Ancelotti eftir sigurinn í gær. "En núna skil ég það ekki, því við spiluðum vel í kvöld."

"Það þjónar engum tilgangi að baula á Ronaldo. Hvað Diego Lopez varðar, þá vona ég að baulið hafi ekki haft slæm áhrif á hann."

Real Madrid situr í þriðja sæti spænsku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Atletico Madrid, þegar sjö umferðir eru eftir af tímabilinu.

Þá er liðið komið í úrslitaleik spænska konungsbikarsins og á miðvikudaginn mætir það Borussia Dortmund á heimavelli í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×