Fótbolti

Flautuðu leikinn af eftir að stuðningsmaður Djurgården lést

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Olympia-leikvangurinn er heimavöllur Helsingborgs IF.
Olympia-leikvangurinn er heimavöllur Helsingborgs IF. Vísir/Getty
Það þurfti að stoppa leik Helsingborgs IF og Djurgården í fyrstu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta í dag eftir að stuðningsmenn Djurgården ruddust inn á völlinn. Leikurinn var seinna flautaður af eftir að í ljós kom að stuðningsmaður Djurgården hafi látist eftir átök í miðbæ Helsingborg.

Stuðningsmenn Djurgården ruddust inn á völlinn þegar þeir fréttu af því að einn stuðningsmaður liðsins hafði látist í átökum við stuðningsmenn Helsingborg en þá var ekki kominn hálfleikur í leiknum.

„Þetta er mikill sorgardagur fyrir fótboltann," sagði Paul Myllenberg framkvæmdastjóri Helsingborgs IF á blaðamannafundi sem var haldin á Olympia-leikvanginum eftir að leiknum var hætt.  „Við urðum að taka þá ákvörðun að flauta leikinn af því það var enginn möguleiki á því að halda leik áfram," sagði Myllenberg.

Óeirðir milli stuðningsmanna er þekkt vandamál í Svíþjóð. „Nú hefur þetta gengið eins langt eins og hægt er þegar fólk er farið að deyja í kringum fótboltaleiki. Ástin hefur yfirgefið fótboltann," sagði Andreas Johansson, fyrirliði Helsingborgs IF.

„Af einhverjum ástæðum hafa menn sætt sig við þessi átök milli stuðningsmanna. Þetta vandamál mun sjá til þess að fólk þorir ekki lengur á fótboltaleiki," sagði Johansson.

Arnór Smárason er leikmaður Helsingborgs IF en hann var á bekknum í leiknum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×