Menning

Þjóðverjar heillast af Jójó

Steinunn Sigurðardóttir og Guðrún Vilmundardóttir
Steinunn Sigurðardóttir og Guðrún Vilmundardóttir Vísir/Úr einkasafni/Anton Brink
Jójó, skáldsaga Steinunnar Sigurðardóttur, sem út kom hjá Bjarti 2011 er nú nýútkomin í Þýskalandi og hefur vakið athygli.

„Fyrstu viðbrögð þar eru einfaldlega frábær og hefur Hamburger Abendblatt valið hana eina af tíu bestu bókum vorsins í Þýskalandi,“ segir Guðrún Vilmundardóttir, útgáfustjóri Bjarts.

„Kvöldblaðið í Hamborg kallaði bókina kannski undursamlegastu bók þessa vors,“  heldur hún áfram.

Ferill Steinunnar í Þýskalandi er langur, nær allt aftur til 1997, og hafa skáldsögur hennar almennt hlotið góðar undirtektir gagnrýnenda. Jójó er sjöunda skáldsaga Steinunnar á þýsku, í þýðingu Colettu Burling, og komur út hjá útgáfurisanum Rowohlt þar í landi. 

Þá kom ljóðabók Steinunnar, Ástarljóð af landi, út 2011, í tvítyngdri viðhafnarútgáfu, með vatnslitamyndum Georgs Guðna, sem voru meðal síðustu verka hans. Ljóðabókin heitir á þýsku: Sternenstaub auf den Fingerkuppen.

Steinunn er nýkomin af bókamessunni í Leipzig, en það er ein stærsta bókamessa Þýskalands, þar sem lesendur eru í öndvegi, en ekki bara fagmenn, einsog til dæmis í Frankfurt. 

„Steinunn hafði þann heiður að opna Bláa sófann, en helstu viðburðir hátíðarinnar fara fram í þessum fræga bláa sófa. Steinunn svaraði þar spurningum um Jójó, sem var svo þar að auki kynnt með fimm upplestrum víðs vegar um borgina meðan á bókamessunni stóð.  Hinn síðasti var í Listasafni Leipzig, Museum der Bildende Kunste, þar sem Steinunn las fyrir fullum sal af áheyrendum innanum nútímalistaverk,“ segir Guðrún og bætir við að Steinunn kynni verk sín á þýsku og lesi upp úr þýsku þýðingunni.  

Steinunn er bókuð í Jójó upplestra til hausts, þar á meðal í norrænu sendiráðunum í Berlín um miðjan apríl og í fjórum Bókmenntahúsum í Þýskalandi, eða Literaturhaus, sem eru öflugar bókmenntastofnanir og eftirsóttar til upplestra.

Í næstu viku kemur Steinunn fram í einum helsta  menningarsjónvarpsþætti Þýskalands, Kulturzeit hjá 3Sat.   






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.