Skoðun

Afglöp ríkisstjórnar í Evrópumálum

Árni Páll Árnason skrifar
Um árabil hefur verið almenn samstaða um að Ísland eigi tvo kosti í gjaldmiðilsmálum: Upptöku evru með aðild að ESB eða áframhald íslenskrar krónu. Vandinn við seinni kostinn er að krónan er í höftum og ekki hefur verið ljóst hvaða umgjörð hún þarf til að lifa af í frjálsu umhverfi.

Fjármálaráðherra lagði um daginn fram á Alþingi skýrslu um framgang mála í afnámi hafta. Þar kom í ljós að ríkisstjórnin hefur ekkert plan um afnám hafta, umfram það sem ákveðið var af fyrri ríkisstjórn.

Meiri athygli á samt að vekja að ráðherra flutti þarna fram án athugasemda yfirlit Seðlabankans um hvaða langtímaumgjörð muni þurfa um krónuna til að hægt sé að afnema höft. Það eru:

1. Reglur um laust fé og gjaldeyrisjöfnuð til að draga úr gjalddagamisræmi banka í erlendum gjaldmiðlum.

2.Takmörkun á heimildum banka til að safna innlánum erlendis.

3. Takmörkun eða bann við gjaldeyrislánum til óvarinna aðila.

4. Stýritæki til að sporna við óhóflegum sveiflum fjármagns inn og út úr landinu, svo sem gjald á fjármagnsflutninga eða bindiskyldu á erlenda fjármögnun.

5.Tímabundnar takmarkanir á aukningu erlendra eigna lífeyrissjóðanna.

Þetta er enginn smálisti og felur í reynd í sér langtímahöft. Það er fullkomlega óljóst hvort svona reglur standast EES-samninginn og flest sem bendir til að svo sé ekki. Eðlilegt hefði verið fyrir ríkisstjórn, sem ber hag þjóðarinnar fyrir brjósti, að byrja á að kanna við viðsemjendur og eftirlitsaðila hvort svona umgjörð virki. En enginn hefur talað við ESB. Ég spurði forseta Eftirlitsstofnunar EFTA á fundi í gær hvort ríkisstjórnin hefði rætt þetta við stofnunina og leitað álits hennar á því hvort þetta standist samninginn. Svar hennar var skýrt: Nei.

Gönuhlaup ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum verður enn hrikalegra í ljósi þessara frétta. Það eru alvarleg afglöp að loka annarri færri leið landsins í gjaldmiðilsmálum, án þess að hafa kannað á nokkurn hátt hvort hin leiðin er fær.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×