Fótbolti

Atlético Madrid sló AC Milan út úr Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Costa fagnar marki sínu í kvöld.
Diego Costa fagnar marki sínu í kvöld. Vísir/AFP
Atlético Madrid er komið í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar í fótbolta eftir 4-1 sigur á AC Milan í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum keppninnar. Atlético vann fyrri leikinn 1-0 og þar með 5-1 samanlagt. Diego Costa var áfram á skotskónum og skoraði tvö mörk fyrir Atlético í kvöld.

Atlético Madrid var sterkari aðilinn í kvöld og þótt að AC Milan hafi fengið færi til að setja meiri spennu í leikinn þá voru heimamenn með þetta nánast í hendi sér. Þetta er í fyrsta sinn í 17 ár sem Atlético Madrid kemst í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Diego Costa skoraði sigurmarkið í fyrri leiknum á 83. mínútu og hann var búinn að koma Atlético Madrid í 1-0 eftir aðeins þriggja mínútna leik í kvöld. AC Milan maðurinn Michael Essien missti þá boltann á slæmum stað og Koke átti laglega sendingu fyrir markið á Diego Costa sem klippti boltann í markið.

Leikmenn AC Milan voru þar með komnir 2-0 undir samanlagt en Ítalirnir voru hinsvegar komnir í allt aðra stöðu eftir að Kaka jafnaði metin á 27. mínútu. Kaka skoraði þá með skalla á fjærstöng eftir fyrirgjöf frá Andrea Poli.

Veik von Ítalanna var þó ekki langvinn. Arda Turan kom Atlético Madrid aftur tveimur mörkum yfir samanlagt og í 2-1 í leiknum þegar hann skoraði annað mark Atlético á 40. mínútu með langskoti sem fór af varnarmanni AC Milan og í markið. Það var smá heppnisstimpill yfir markinu en mikilvægið var mikið.

Atlético Madrid gerði síðan endanlega út um viðureignina þegar Raul Garcia skoraði með laglegum skalla eftir aukaspyrnu Koke á 71. mínútu en Diego Costa átti eftir að innsigla sigurinn með fjórða markinu fimm mínútum fyrir leikslok.

Diego Costa skoraði sigurmarkið í fyrri leiknum á 83. mínútu og hann var búinn að koma Atlético Madrid í 1-0 eftir aðeins þriggja mínútna leik í kvöld. Kaka jafnaði metin á 27. mínútu þegar hann skoraði með skalla á fjærstöng eftir fyrirgjöf frá Andrea Poli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×