Erlent

Bandaríkjamenn telja atkvæðagreiðsluna ólöglega

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Haldin verður þjóðaratkvæðagreiðsla á morgun á Krímskaga hvort að landsvæðið eigi að tilheyra Rússlandi.
Haldin verður þjóðaratkvæðagreiðsla á morgun á Krímskaga hvort að landsvæðið eigi að tilheyra Rússlandi. visir/afp
Ekki tókst á ná sáttum á milli rússneskra og bandarískra stjórnvalda um hvernig ætti að leysa stöðuna á Krímskaga í Úkraínu eftir stíf fundarhöld í gær. Haldin verður atkvæðagreiðsla á morgun á Krímskaga hvort að landsvæðið eigi að tilheyra Rússlandi.

Tveir létu lífið eftir að til átaka kom á milli stuðningsmanna Rússlands og Úkraínu í borginni Kharkiv í austurhluta Úkraínu í gærkvöldi. Fylkingarnar saka hvora aðra um að bera ábyrgð á átökunum. Borgarstjórinn í Kharkiv staðfesti að tveir hefðu fallið í átökunum og fimm slasast.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, funduðu í gær í sex klukkustundir um stöðuna á Krímskaga án þess að komast að samkomulagi. Haldin verður atkvæðagreiðsla á Krímskaga á morgun hvort að íbúar landsvæðisins vilji tilheyra Rússlandi.

Beita Rússar neitunarvaldi?

Bandaríkjamenn telja fyrirhugaða atkvæðagreiðslu vera ólöglega og ætla ekki að taka mark á þeirri niðurstöðu sem hún skilar. Bandaríkjamenn telja að ekki sé hægt að halda atkvæðagreiðslu á meðan rússneskar hersveitir stýri landsvæðinu. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun í dag kjósa um tillögu Bandaríkjamanna um að atkvæðagreiðslan á Krímskaga verði lýst ólögleg. Rússar hóta að beita neitunarvaldi í öryggisráðinu.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, heitir því að Rússar muni virða niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar á Krímskaga.

Rússar hafa hert tökin á Krímskaga og bættu við hersveitum og vopnum á svæðinu í gær. Rússar hafa hótað því að ráðast inn í borgina Donetsk til að kveða niður átök. Hernaðaríhlutun Rússa í Úkraínu hefur nú staðið yfir í þrjár vikur frá því að Viktor Janúkovítsj, fyrrverandi forseti Úkraínu, hrökklaðist frá völdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×