Fótbolti

Mourinho: Drogba er ennþá einn af þeim bestu í heimi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Didier Drogba.
Didier Drogba. Vísir/Getty
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, talaði vel um Didier Drogba á blaðamannafundi fyrir seinni leik Chelsea og Galatasaray í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar sem fer fram á Stamford Bridge í kvöld.

Didier Drogba er nú leikmaður tyrkneska félagsins Galatasaray og spilar þarna sinn fyrsta leik á Stamford Bridge síðan að hann yfirgaf Chelsea í júní 2012.

„Er Drogba sami leikmaður 36 ára og hann var þegar hann var 26 ára? Það er enginn en hann er án vafa einn af bestu framherjum heims," sagði Jose Mourinho. Hann fékk Drogba frá Marseille árið 2004.

Drogba skoraði 157 mörk í 342 leikjum með Chelsea og tryggði Chelsea sigur í Meistaradeildinni með því að skora úr síðustu spyrnunni í vítakeppni í úrslitaleiknum sem var jafnframt síðasti leikur hans fyrir Chelsea.

„Hann er einn af mikilvægustu leikmönnunum í sögu Chelsea. Ég og stuðningsmenn Chelsea getum öll verið sammála um það," sagði Mourinho sem sér Drogba snúa aftur á Brúna.

„Ég held að hann komi aftur til félagsins í framtíðinni. Hvenær það verður veit ég ekki, á næsta ári, eftir fjögur, fimm eða tíu ár eða hvort að hann snúi aftur sem leikmaður, þjálfari eða sendiherra," sagði Mourinho.

Leikur Chelsea og Galatasaray hefst klukkan 19.45 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Upphitun Hjartar Hjartarsonar hefst klukkan 19.00 og eftir leikinn verður farið yfir gang mála í báðum leikjum kvöldsins í Meistaramörkunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×