Fótbolti

Van Persie með þrennu og United komst áfram | Myndband

Robin van Persie var allt í öllu í 3-0 sigri Manchester United á Olympiakos í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Van Persie skoraði öll þrjú mörk United í leiknum en var svo borinn meiddur af velli í blálok leiksins.

Fyrsta markið skoraði hann úr vítaspyrnu sem hann fékk sjálfur á 25. mínútu. Hann skoraði svo annað mark sitt og United í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Staðan í rimmunni var þá jöfn, 2-2, þar sem Olympiakos vann fyrri leikinn í Grikklandi, 2-0. En Van Persie sá til þess að United komst áfram er hann fullkomnaði þrennuna á 51. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu.

Olympiakos komst nokkrum sinnum nálægt því að skora í leikum en markvörðurinn David de Gea varði nokkrum sinnum glæsilega. Grikkirnir sitja því eftir með sárt ennið en líklega hafa fáir fagnað meira en David Moyes, knattspyrnustjóri United, sem hefur verið undir mikilli pressu síðustu daga og vikur.

Margir reiknuðu með að starfið væri undir hjá Moyes í leiknum í kvöld en ljóst er að hann hangir í starfi eitthvað áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×