Erlent

Obama varar Rússa við hernaðaraðgerðum í Úkraínu

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Vísir/AFP
Sergiy Aksyonov, nýkjörinn forsætisráðherra Krímshéraðs Í Úkraínu, hefur óskað eftir aðstoð frá Vladimír Pútín rússlandsforseta í deilum við ný stjórnvöld í Kænugarði. Óttast er að Úkraínumenn séu að missa völdin á Krímskaganum.

Bandarísk stjórnvöld hafa staðfest að þrettán rússneskar flutningavélar hafi lent á herflugvelli í grennd við borgina borgina Simferopol í gærkvöld en um borð eiga að hafa verið um tvö þúsund rússneskir hermenn. Öryggisráð sameinuðu þjóðanna hélt neyðarfund um málið í dag.

Olexander Túrtsjínov, starfandi forseti Úkraínu, sakar rússa um að senda hermenn á Krímskaga til þess að ögra úkraínumönnum og hvetja til óeirða. Hann hefur skorað á Vladimír Pútín, forseta Rússlands, að kalla allt herlið sitt frá landinu.

Aksyonov var gerður forsætisráðherra af héraðsþingi Krímhéraðs í óþökk stjórnvalda í Kænugarði. Hætta er talin á blóðugum átökum milli stuðningsmanna nýju valdhafanna í Kænugarði og aðskilnaðarsinna sem vilja að Krímskagi verði aftur hluti af Rússlandi.

Barack Obama bandaríkjaforseti flutti ávarp í Hvíta húsinu í gær þar sem hann varaði Pútín við frekari hernaðaríhlutun í Úkraínu, og sagðist óttast að afskipti rússneskra stjórnvalda ógni stöðugleika á svæðinu. Obama sagði Bandaríkin og alþjóðasamfélagið standa þétt saman gegn hernaði í landinu. Þá hafa Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og David Cameron, forsætisráðherra Breta, reynt að ná tali af Pútín símleiðis til að koma í veg fyrir frekari aðgerðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×