Erlent

Neyðarfundur hjá SÞ vegna Úkraínu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/AFP
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman til fundar í kvöld til að ræða ástandið sem komið er upp á Krímskaga.

Vladímír Pútín forseti Rússlands segist ekki hafa tekið neina ákvörðun þess efnis að senda herlið til Úkraínu þrátt fyrir ítrekaðar áskanir þarlendra stjórnvalda.

Úkraínustjórn hefur lýst yfir að Rússar hafi nú þegar sent á sjöunda þúsund hermanna til landsins og að þeir hafi tekið sér stöðu um þinghús og flugvöll Krímhéraðs.

Forsætisráðherra héraðsins leitaði á náðir Rússneskra yfirvalda til að tryggja friðinn á svæðinu. 

Íbúar þar eru að miklum meirihluta rússneskumælandi og af rússneskum ættum og vilja meiri tengsl við Rússa en önnur lönd.

Vísir hefur áður greint frá því að rússneska þingið samþykkti að senda herlið á Krímskagann nú fyrir skömmu.

Einnig var samþykkt að kalla heim sendiherra landsins frá Bandaríkjunum en leiða má líkur að því að það sé vegna yfirlýsinga Obama forseta þar sem hann varaði Rússa við afleiðingum þessa að senda herlið til Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×