Erlent

Angela Merkel segir Pútín veruleikafirrtan

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/AFP
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segist efast um að Vladímír Pútín Rússlandsforseti sé í tengslum við raunveruleikann.

Þetta er haft eftir henni í viðtali við New York Times í kjölfar símtals hennar við Pútín í gær.

„Hann er í öðrum heimi,“ sagði kanslarinn meðal annars.

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins blésu til neyðarfundar í dag um ástandið í Úkraínu og búist er við harðorðri yfirlýsingu um framferði Rússa frá NATO innan skamms.

Leiðtogar Vesturheims eru þó ósamstíga þegar kemur að mögulegum aðgerðum gegn Rússum en John Kerry lýsti því yfir í gær að hann færi fram á viðskiptaþvinganir við Rússa, eitthvað sem Þjóðverjar hafa ekki geta fallist á fram til þessa.

Leiðtogar G-7 ríkjanna, helstu iðnríkja heimsins, hafa opinberað að þau munu ekki taka þátt í undirbúningi fyrirhugaðrar ráðstefnu ríkjanna í Sotsjí í sumar að öllu óbreyttu.

Rússland er aðili að G-8 samráðsvettvangnum en hin ríkin sjö hafa látið í veðri vaka að Rússum verði bolað þaðan út í ljósi framferðis þeirra undanfarnar vikur.


Tengdar fréttir

ÖSE miðlar málum milli Úkraínu og Rússlands

Vladímír Pútín Rússlandsforseti gekk að tillögu Angelu Merkel Þýskalandsforseta um að koma á starfshópi sem safnaði saman staðreyndum og héldi utan um samskipti vegna málefna Úkraínu. Hópinn leiði Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×