Innlent

Gunnar Bragi fundar með sendiherra Rússa

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, fundaði með sendiherra Rússlands í morgun þar sem ástandið í Úkraínu var rætt. Frá þessu greinir Gunnar á Facebook síðu sinni.

Gunnar Bragi sagði íslensk stjórnvöld leggja þunga áherslu á að Rússar láti umsvifalaust af öllum hernaðaraðgerðum í Úkraínu og fari að alþjóðalögum. Þá segir hann kröfuna skýra um að rússnesk stjórnvöld leiti sátta með friðsamlegum hætti í stað þess að grípa til vopnaðrar íhlutunar.

Spenna milli Úkraínu og Rússlands er mikil eftir að ný stjórn tók við völdum í Úkraínu, skipuð mið- og hægriflokkum sem hafa verið á móti nánari tengslum Úkraínu við Rússland.

Í Moskvu er brottvikning Viktors Janúkóvitsj forseta fordæmd og var sendiherra Rússlands kallaður heim eftir að nýskipaður forseti til bráðabirgða, Oleksandr Túrkínov, starfandi forseti Úkraínu, sagðist vilja nánari tengsl við Evrópusambandið.

Rússneska þingið samþykkti á laugardag að senda hersveitir inn fyrir landamæri Úkraínu. Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, segist ekki hafa ákveðið hvort hann sendi aukið herlið til landsins, en rússneskir hermenn sem voru þar fyrir hafa í dag farið á milli herstöðva á Krímskaga og lagt hald á vopn Úkraínumanna. Þó hefur ekki enn komið til átaka.

Oleksandr Túrkínov, hefur kallað út varalið úkraínuhers og óttast stríð.  Þá hefur öryggisgæsla verið hert í mörgum hlutum landsins, til að mynda við kjarnorkuver.

Gunnar Bragi mun halda áfram að funda um málið í dag.


Tengdar fréttir

ÖSE miðlar málum milli Úkraínu og Rússlands

Vladímír Pútín Rússlandsforseti gekk að tillögu Angelu Merkel Þýskalandsforseta um að koma á starfshópi sem safnaði saman staðreyndum og héldi utan um samskipti vegna málefna Úkraínu. Hópinn leiði Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×