Erlent

Hvað gerist í Úkraínu: Þrír líklegustu möguleikarnir

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Hermenn bíða átekta í hafnarborginni Feodosíja á Krímskaga
Hermenn bíða átekta í hafnarborginni Feodosíja á Krímskaga Nordicphotos/AFP
Þýska tímaritið Der Spiegel veltir fyrir sér út í hvað spennan í Úkraínu geti þróast á næstunni. Þrír möguleikar þykja líklegastir.

Í versta falli gæti brotist út stríð milli Rússa og Úkraínumanna. Átökin yrðu væntanlega á Krímskaga eða á mörkum Krímskaga og Úkraínu. Þau gætu síðan breiðst út til annarra staða í Úkraínu, einkum austurhluta landsins þar sem rússneskumælandi íbúar eru fjölmennastir.

Blaðamennirnir á Der Spiegel hafa ekki mikla trú á því að Vesturlönd grípi inn í og sendi herlið til að berjast við Rússa. Mjög líklega verði þó Rússar beittir refsiaðgerðum.

Annar möguleiki er sá, sem leiðtogar á Vesturlöndum myndu helst kjósa, en það er að samningaviðræður fari fram með þátttöku Vesturlanda og Alþjóðastofnana í von um að menn rambi á endanum á lausn sem flestir gætu sætt sig við. Til greina kæmi að senda friðargæslulið til Úkraínu á meðan ástandið væri sem viðkvæmast. 

Þriðji möguleikinn er sá að Úkraína liðist smám saman í sundur. Rússar muni helga sér einhver svæði á Krímskaga og í austurhluta Úkraínu, sem þeir myndu nefna verndarsvæði sín. Úkraínustjórn gæti lítið gert og eftir stæði mun minni Úkraína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×