Körfubolti

Kanadamaður tekur við íslenska karlalandsliðinu í körfubolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Craig Pedersen.
Craig Pedersen. Mynd/KKÍ/Linda Sörensen
Kanadamaðurinn Craig Pedersen tekur við íslenska landsliðinu í körfubolta af Peter Öqvist en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Körfuknattleikssambandi Íslands.

Craig Pedersen hefur unnið með Arnari Guðjónssyni hjá danska liðinu Svendborg en Pedersen hefur þjálfað liðið undanfarin ellefu ár með góðum árangri. Svendborg-liðið varð danskur bikarmeistari á dögunum undir stjórn þeirra félaga.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Craig Pedersen kemur að þjálfun landsliðs en hann var aðstoðarþjálfari danska karlalandsliðsins frá 2004 til 2009.

Craig Pedersen lék sem atvinnumaður í Danmörku frá 1989-2003 og hóf að þjálfa strax að leikmannaferlinum loknum eða árið 2003. Pedersen lék með Horsens BC, Horsens IC og Skovbakken, meðal annars undir stjórn Geoff Kotila, fyrrverandi þjálfara Snæfells. Þeir starfa einmitt saman í dag við Efterskolen í Nyborg, sem er skóli sem sérhæfir sig í körfuknattleik.

Craig hefur komið Svendborg í úrslit dönsku deildarinnar sjö sinnum, þar af stóðu þeir einu sinni uppi sem meistarar. Liðið hefur fimm sinnum leikið til bikarúrslita og unnið þrisvar sinnum, síðast nú í janúar. Þá hefur Craig þrisvar verið kosinn þjálfari ársins í Danmörku.

Aðstoðarmaður Craig með landsliðið ásamt Arnari Guðjónssyni verður Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari meistaraflokks karla hjá KR, en hann mun jafnframt þjálfa U20 ára landslið karla sem fer á Norðurlandamót í júní.

Verkefni sumarsins er fyrst og fremst undankeppni Evrópukeppninnar í ágúst þar sem Ísland verða í riðli með Bretlandi og Bosníu. Liðið mun hefja æfingar í júlí og mun liðið leika æfingaleiki í lok júlímánaðar áður en baráttan hefst 10. ágúst í Laugardalshöll þegar Bretar mæta. En það verður fyrsti leikur Íslands í undankeppni Evrópukeppninnar 2015.

Mynd/KKÍ/Linda Sörensen



Fleiri fréttir

Sjá meira


×