Fótbolti

Real Madrid náði þriggja stiga forystu á toppnum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gareth Bale í leiknum í kvöld.
Gareth Bale í leiknum í kvöld. Vísir/Getty
Real Madrid bar í kvöld sigurorð af Levante, 3-0, á heimavelli og náði þar með þriggja stiga forystu á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar.

Madrid var mun sterkari aðilinn í leiknum og náði forystunni strax á 11. mínútu þegar Cristiano Ronaldo skallaði fyrirgjöf Ángels di María netið. Þetta var 24. mark Ronaldos í La Liga í vetur, en hann er markahæstur í deildinni.

Marcelo bætti við marki í upphafi seinni hálfleiks og Nikos Karabelas skoraði svo afar neyðarlegt sjálfsmark á 81. mínútu, en í millitíðinni var David Navarro, varnarmaður Levante, rekinn út af með rautt spjald.

Real Madrid hefur verið á ótrúlegri siglingu að undanförnu, en liðið er taplaust í 29 leikjum í öllum keppnum.

Madrid situr í efsta sæti La Liga, þremur stigum á undan nágrönnum sínum í Atletico Madrid og fjórum stigum á undan Barcelona sem tapaði óvænt í gær fyrir Valladolid.

Real Madrid er auk þess komið í úrslitaleik spænsku bikarkeppninnar og er nánast gulltryggt með sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar eftir 6-1 sigur á Schalke 04 á útivelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×