Erlent

„Við erum siðað fólk en ráðamenn okkar eru villimenn“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
„Ég er frá Úkraínu, er búsett í Kænugarði, og nú er ég stödd á Sjálfstæðistorginu í miðri heimaborg minni.“

Svona hefst ræða 25 ára gamallar konu í myndbandi sem vakið hefur mikla athygli, en það er tekið á torginu þar sem nú standa yfir blóðugir bardagar milli mótmælenda og lögreglu í Kænugarði.

Myndbandið hefur verið spilað tæplega 3,5 milljón sinnum á YouTube síðan það var sett inn fyrir tíu dögum.

„Ég vil að þið vitið hvers vegna þúsundir manna í heimalandi mínu ganga nú um göturnar. Það er aðeins ein ástæða fyrir því. Við viljum frelsi frá ógnarstjórn. VIð viljum frelsi frá stjórnmálamönnum sem vinna aðeins í eigin þágu. Sem eru reiðubúnir að skjóta, berja og slasa fólk til þess að vernda fjármuni sína, hús og völd.“

Konan kemur ekki fram undir nafni af ótta við að það verði notað gegn sér, en skilaboðin eru skýr. Tökumaðurinn Ben Moses tók myndbandið og spjallar hann stuttlega um það á vef CNN.

Konan segist óska þess að samlandar sínir geti lifað eðlilegu lífi. „Við erum siðað fólk en ráðamenn okkar eru villimenn. Þetta eru ekki Sovétríkin. Við viljum ekki spillingu í réttarkerfinu og við þráum frelsi.“

Myndbandið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Tuttugu og fimm liggja í valnum í Kænugarði

Að minnsta kosti tuttugu og fimm hafa fallið í átökum mótmælenda og lögreglu í Kænugarði í Úkraínu frá því í gær. Óeirðalögreglan gerði í morgun atlögu að strærstu búðum mótmælenda á Sjálfstæðistorginu í miðbænum.

35 sagðir látnir í Kænugarði

Átökin milli mótmælenda og lögreglu héldu áfram í nótt og morgun þrátt fyrir yfirlýsingar um vopnahlé.

„Ástandið hérna er hrikalegt“

Hilmar Júlíusson er staddur í vinnuferð í Kænugarði í Úkraínu, þar sem mikil átök brutust út á milli mótmælenda og lögreglumanna. Hann var heppinn að lenda ekki degi fyrr í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×