Fótbolti

Barcelona missteig sig í Baskalandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sociedad-menn máttu svo sannarlega fagna í kvöld.
Sociedad-menn máttu svo sannarlega fagna í kvöld. Vísir/Getty
Real Sociedad gerði sér lítið fyrir og lagði Spánarmeistara Barcelona að velli, 3-1, á heimavelli sínum í San Sebastián í Baskalandi í kvöld.

Alexandre Song varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 32. mínútu leiksins en Lionel Messi svaraði fjórum mínútum síðar, 1-1, og þannig var staðan í hálfleik.

Frakkinn Antoine Griezmann heldur áfram að fara á kostum í spænsku 1. deildinni en hann kom heimamönnum aftur yfir, 2-1, á 54. mínútu. Þetta er fjórtánda mark þessa 22 ára gamla leikmanns á tímabilinu.

Það var svo David Zurutuza sem bætti við forskot Real Socedad, 3-1, á 59. mínútu og sama hvað Barcelona reyndi tókst því ekki að skora fleiri mörk.

Þetta er afar slæmt fyrir Barcelona í toppbaráttunni en liðið er nú með 60 stig, þremur stigum á eftir Real Madrid sem vann Elche fyrr í dag, 3-0.

Börsungar halda öðru sætinu allavega til morguns en Atlético Madrid á leik inni og getur komist upp að hlið Real með sigri annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×